Erlent

Áratugur frá því Estonia sökk

Áratugur er í dag liðinn frá farþegaferjan Estonia fórst á Eystrasalti, og enn liggur ekki fyrir hvers vegna. Eftirlifendur krefjast rannsóknar, en yfirvöld í Svíþjóð eru mótfallnir því að kafarar kanni flakið. Aðfararnótt 28. september 1994 barst neyðarkall frá farþegaferjunni Estóníu sem var á leiðinni yfir Eystrasaltið. Stefni ferjunnar hafði látið undan í ólgusjó og vatn streymdi inn. Innan fárra mínútna sökk ferjan og 854 fórust með henni. Þetta er mannskæðasta sjóslys frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Þeir sem fórust liggja í kaldri gröf í flaki skipsins, en öll ríki við Eystrasalt hafa lýst því yfir að ferjan skuli friðuð. Svíar eru því mótfallnir að hreyft verði við nokkru um borð. Ástæður þess að Estónía fórst eru enn á reiki. Opinber rannsókn leiddi í ljós smíðagalla. Þýska fyrirtækið sem smíðaði skipið lét gera aðra rannsókn, þar sem því er haldið fram að útgerðarfyrirtækis hafi ekki sinnt eftirliti. Auk þess hafa samsæriskenningar gengið um að Svíar hafi eitthvað að fela. Samsæriskenningar um sprengingar um borð hafa einnig heyrst. Minningarathafnir fara fram í Stokkhólmi og Tallin í skugga óvissunnar, og aðstandendur vilja ennþá að ný rannsókn fari fram á orsökum slyssins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×