Erlent

Fuglaflensa berst milli manna

Fuglaflensa er talin hafa smitast á milli manna á Tælandi nýlega og valdið dauða konu. Tilvikið hefur valdið ótta í landinu enda væri slíkt smit til marks um breytingar á sjúkdómnum, sem hingað til hefur einungis smitast úr fiðurfé. 26 ára gömul kona lést 20. september síðastliðinn eftir að hafa smitast af fuglaflensu. Hún hafði þá um skeið hjúkrað ungri dóttur sinni sem einnig hafði smitast af fuglaflensu eftir að hafa sinnt sjúkum hænsnum. Læknar telja næsta öruggt að móðirin hafi smitast af dótturinni. Þessi tíðindi hafa valdið nokkru uppnámi í Tælandi, enda hafa sérfræðingar haft af því nokkrar áhyggjur að fuglaflensan gæti stökkbreyst og borist á milli manna. Afleiðingarnar gætu orðið skelfilegar, svipaðar heimsfaraldrinum árið 1918, þegar 20 milljónir manna týndu lífi. Talsmenn alþjóða heimbrigðismálastofnunarinnar segja líklegt að í þetta skipti sé þó um einangrað tilvik að ræða en ekki stökkbreytingu á H5N1-stofni veirunnar. Að sögn þeirra er talið að veiran sé ekki nægilega sterk til að berast manna á milli, þrátt fyrir einangruð tilvik. Til að stökkbreytast yrði hún fyrst að berast í dýr, líkast til svín eða kattardýr, sem geta smitast af hefðbundinni flensu, og þar myndu veirurnar renna saman og styrkjast með þeim afleiðingum að smit gæti borist manna á milli. Enn sem komið er segja sérfræðingar hins vegar engar vísbendingar um að þetta hafi gerst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×