Erlent

Jeanne veldur usla í Flórída

Fellibylurinn Jeanne, sem farið hefur um Karabíska hafið undanfarna viku og valdið dauða um 1.500 manns, skall á austurströnd Flórída á miðnætti á laugardag. Bæirnir Stuart, Fort Pierce og Vero Beach urðu verst úti og í gærkvöldi bárust fréttir um að tveir hefðu látist. Þök rifnuðu af húsum, rafmagnslínur slitnuðu og brak frá því síðustu fellibyljir fóru yfir svæðið fauk um allt. Meira en milljón heimili urðu rafmagnslaus. Þak rifnaði meðal annars af sjúkrahúsi í Stuart og lak vatn inn á sjúkrastofur. Færa þurfti fjölda sjúklinga á neðri hæðir sjúkrahússins. Í gærkvöldi stefndi Jeanne í áttina að Orlando en þaðan er búist við að fellibylurinn fari í átt að Georgíu og Karolínu. Jeanne er fjórði fellibylurinn sem fer yfir Flórída á síðust sex vikum. Hann kom á land á sama stað og Frances gerði fyrir þremur vikum. Áður en Jeanne reið yfir Flórída höfðu tryggingafélög metið eignatjónið á allt að 18 milljarða króna. Sú tala á eftir að hækka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×