Erlent

Blóðug borgarastyrjöld framundan?

Blóðug borgarastyrjöld gæti brotist út í Súdan takist ekki að semja frið í Darfur-héraði innan skamms. Hundruð þúsunda flóttamanna halda enn til í flóttamannabúðum og fleiri eru á leiðinni. Ruud Lubber, yfirmaður flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, hefur um helgina kannað ástandið í flóttamannabúðum í Chad þar sem hundruð þúsunda flóttamanna frá Darfur-héraði í Súdan halda til. Að hans mati dugir ekkert annað en sjálfstjórn fyrir íbúa Darfur til að binda enda á hörmungarástandið þar. Aðspurður hvort hann telji meiri stöðugleika í Darfur hugsanlega leiða til þess að fleiri reyndu að komast þaðan segir Lubber að þá megi búast við að hin hundrað þúsundin muni koma, og fleiri fylgi á eftir. „En þegar allt kemur til alls getur lausnin ekki falist í skipulagningu. Hún verður að felast í tafarlausu vopnahléi og síðan einhverri von um friðsamlega framtíð í Darfur,“ segir Lubber. Í flóttamannabúðunum er búist við fleiri flóttamönnum í kjölfar þess að regntímabilinu er lokið og eftir að stjórnvöld lofuðu að taka á skæruliðum sem ráðist hafa á Darfur-búa á flótta. Í friðarviðræðun deilenda gengur hvorki né rekur. Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Súdan sagðist í vikunni óttast blóðuga borgarastyrjöld tækist ekki að ná einhvers konar friðarsamkomulagi á næstunni. Hann óttast að ástandið yrði þá sambærilegt við hörmungarnar í Sómalíu. Talið er að fimmtíu þúsund hafi fallið í átökum í héraðinu og vel á aðra milljón hefur flúið undan Janjaweed-skæruliðum, arabískum sveitum sem fullyrt er að fremji þjóðarmorð í Darfur með samþykki stjórnvalda í Khartoum. Á myndinni sést Ruud Lubber á tali við flóttamenn í Riyad-búðunum í Darfur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×