Erlent

Upplausn á Haítí

Aðframkomnir íbúar Haítís reyndu í gær að brjótast inn í matvælageymslur hjálparstofnana til að verða sér úti um mat og vatn. Fellibylurinn Jeanne, sem lagði norðurhéruð Haítís í rúst fyrr í vikunni, stefnir nú á Flórída-ríki þar sem hátt í milljón manns hefur flúið heimili sín. Allt er á suðupunkti í Haíti þar sem fórnarlömb Jeannes bíða í örvæntingu eftir utanaðkomandi aðstoð. Í gær reyndu hjálparsamtök í Gonaives sem varð verst úti í flóðunum að dreifa mat, eingöngu til kvenna. Svæðið fylltist hins vegar fljótt af fólki í leit að aðstoð og þurftu friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna að nota reyksprengjur til að halda mannfjöldanum í skefjum. Algert neyðarástand er í norðurhluta Haítis og mest er aðkallandi að koma fersku vatni til íbúanna sem enn vaða um í klóakmenguðu flóðavatni. Búið er að finna lík fimmtán hundruð manna en jafnmargra er enn saknað. Fellibylurinn Jeanne er langt í frá dauður úr öllum æðum. Hann fór yfir Bahama-eyjar í dag með tilheyrandi usla en enn er ekki vitað nákvæmlega um tjón. Á morgun er svo búist við að Jeanne gangi á land við austurströnd Flórída. Þar eru íbúar orðnir langþreyttir á óveðri enda hafa þeir fengið sinn skammt, og vel það, að undanförnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×