Erlent

Vill heimastjórn í Darfur

"Skýrt framsal á völdum verður að eiga sér stað í Darfur," sagði Ruud Lubbers, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, þegar hann hvatti til þess að íbúar Darfur fengju heimastjórn. Súdönsk stjórnvöld hafa hingað til sagst reiðubúin að semja um slíkt en hafa ekki viljað ganga jafn langt og uppreisnarmenn krefjast. Ummæli Lubbers ganga lengra en það sem erlendir ráðamenn og embættismenn hafa sagt til þessa þegar þeir hafa rætt lausn nær tveggja ára langs borgarastríðs sem hefur kostað 50 þúsund manns lífið og orðið til að hrekja hálfa aðra íbúa héraðsins á flótta. Hann tók fram að þótt stjórnvöld veittu héraðinu sjálfstjórn þýddi það ekki að þau væru að gefa héraðið frá sér. "Hvað meina þeir með sjálfstjórn svæðisins? Þetta er eitthvað sem verður að ræða," sagði Mohammed Youssef Abdullah, ráðherra mannúðarmála í súdönsku ríkisstjórninni, og kvað stjórn sína reiðubúna til samninga um heimastjórn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×