Erlent

Segja sig úr kirkjunni í hrönnum

Úrsögnum úr rómversk-kaþólsku kirkjunni í Austurríki hefur fjölgað verulega undanfarna mánuði. Ástæðan er hneykslismál sem hafa umlukið kirkjuna. Snemma í sumar uppgötvaðist mikið magn barnakláms í prestaskóla og einn þekktasti prestur landsins hefur verið sakaður um að beita sóknarbörn á táningsaldri kynferðislegu ofbeldi. Úrsagnir úr kirkjunni voru 36 prósentum fleiri í júlí en árið áður og 40 prósentum meiri í ágúst en á sama tíma í fyrra. Reyndar er ekki nóg að segja sig úr kirkjunni því stjórnvöld verða að samþykkja úrsögnina, skilyrði fyrir samþykki er að fólk skuldi ekki sóknargjöld sem geta numið tugum þúsunda króna árlega. Kynlífshneyksli eru ekki nýjung fyrir kaþólsku kirkjuna í Austurríki. Fyrir sex árum var kardináli neyddur til að segja af sér eftir að hann var sakaður um að hafa brotið kynferðislega gegn ungum piltum á áttunda áratug síðustu aldar. Þá var skólastjórinn í prestaskólanum þar sem barnaklámið fannst í sumar einn helsti stuðningsmaður kardinálans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×