Erlent

Ég bið ykkur um að sýna miskunn

Ættingjar Kenneth Bigley, breska gíslsins sem haldið er föngnum í Írak, róa nú lífróður í von um að sjá hann aftur heilan á húfi. Kona hans grátbændi mannræningjana um að hlífa honum og senda hann aftur til sín og bróðir hans skammaði Bandaríkjamenn fyrir að grafa undan möguleikum á að bjarga lífi hans. "Við höfum verið gift í sjö ár og ég elska hann mjög heitt. Ég vil ekkert frekar en að hitta hann á ný. Ég bið ykkur um að sýna miskunn. Ég sárbæni ykkur að sleppa Ken svo ég fái að sjá hann aftur," sagði Sombat Bigley, eiginkona síðasta eftirlifandi gíslsins af þremur sem rænt var á dögunum. "Ken, eiginmaður minn, er venjulegur, harðduglegur fjölskyldumaður sem vildi hjálpa írösku þjóðinni. Sem ástrík eiginkona hans sárbæni ég ykkur enn og aftur um að sýna honum miskunn," sagði Sombat. Hryðjuverkamenn í hreyfingu Abu Musab al-Zarqawi rændu Bigley og tveimur Bandaríkjamönnum sem hafa þegar verið myrtir. Þeir kröfðust þess að öllum kvenföngum í haldi Bandaríkjamanna yrði sleppt úr haldi en þeirri kröfu hafa Bandaríkjamenn hafnað. Þeir segja aðeins tvær konur í haldi, en báðar tengdust áætlunum Íraka um að koma sér upp gjöreyðingarvopnum og fengu þær viðurnefnin doktor Sýkill og frú Miltisbrandur. "Við höfum ekki verið í samningaviðræðum og við munum ekki semja við hryðjuverkamenn um lausn gíslanna," sagði Iyad Allawi, forsætisráðherra Íraks, í gær. Daginn áður höfðu íraskir embættismenn sagt að annarri konunni yrði sleppt úr haldi en Bandaríkjamenn höfnuðu því og æðri ráðamenn í Írak einnig. Bróðir gíslsins, Paul Bigley, sakar bandarísk yfirvöld um að skemma fyrir möguleikanum á að endurheimta Bigley heilan á húfi með því að neita að sleppa konunum tveimur úr haldi. "Það var smá vonarglæta við endann á stórum, löngum, myrkum, skítugum og köldum göngunum. Nú hefur sú von verið eyðilögð," sagði hann eftir að bandarísk yfirvöld neituðu að verða við kröfum hryðjuverkamannanna. Sjálfur bað Kenneth Bigley um aðstoð Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, í myndbandi sem var dreift á netinu í fyrrakvöld. "Þetta er hugsanlega síðasta tækifæri mitt. Ég vil ekki deyja," sagði hann. Bandarísku gíslarnir voru báðir skornir á háls. Lík þeirra hafa fundist og var aftaka annars mynduð og sýnd á netinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×