Erlent

Líf Kenneths hangir á bláþræði

Kenneth Bigley er sextíu og tveggja ára gamall Breti, sem er í haldi mannræningja í Írak. Þeir hóta að skera hann á háls, og enginn virðist geta gert nokkuð til að koma í veg fyrir það. Kenneth Bigley er síðasti gíslinn af þremur sem hópur mannræningja í Írak hefur í haldi. Tveir hafa þegar verið drepnir og mannræningjarnir hóta að drepa Kenneth, sem grátbað um grið í upptöku sem sett var á netið í nótt. Þar bað hann Tony Blair að hjálpa sér, hann vissi að Blair gæti gert það og hann væri eini maðurinn á jörðinni sem gæti gert eitthvað fyrir sig. Enginn veit hver staða Kenneths er nú, en miðað við afstöðu írakskra, breskra og bandarískra yfirvalda gagnvart kröfum mannræningjanna um að hverföngum í Írak verði sleppt, er ljóst að líf hans hangir á bláþræði. Sonur hans bað mannræningjana að sýna miskunn. Í myndbandsupptöku sagði sonurinn við mannræningjana: „Við vitum að þið gefist ekki upp, en við vitum lýka að þið getið sýnt miskunn og við biðjum ykkur því um að sleppa Ken aftur til fjölskyldu sinnar." Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, var ekki bjartsýnn þegar hann ræddi við fréttamenn í dag. Hann sagði að kvíði fjölskyldu Kenneths væri skiljanlega orðinn gríðarlegur, eftir líflát Bandaríkjamannanna tveggja og auðvitað byggi hún sig undir hið versta. Hins vegar yrði allt gert til að reyna að ná Kenneth úr haldi, en það væri barnalegt að segja að vonin væri mikil.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×