Erlent

Bretar ósáttir við meðferð á Cat

Bretar eru öskuillir yfir því að Cat Stevens hafi verið vísað úr landi og segja fáránlegt að farþegavél með mörg hundruð manns hafi verið vísað frá Washington þar sem Stevens var um borð. Utanríkisráðherra Bretlands hefur sent formlega kvörtun til Washington. Bandaríkjamenn segja að Yusuf Islam, sem áður hét Cat Stevens, sé ekki velkominn til Bandaríkjanna þar sem borist hafi upplýsingar sem tengi hann vafasömum hópum, hugsanlega hryðjuverkamönnum. Haft er eftir ónafngreindum embættismanni að Stevens hafi gefið fé til Hamas-samtakanna. Þetta er skýringin á því, af hverju farþegaflugvél á leið frá Lundúnum til Washington var beint til Bangor í Maine þegar nafnið Yusuf Islam kom í ljós á farþegalistanum. Getgátur voru uppi um að einhvers konar misskilningur væri á ferðinni, en nú er ljóst að Cat Stevens á vini sem gætu verið hættulegir. Bretar eru ekki á því að þetta sé neitt spaug, og kvartaði Jack Straw, utanríkisráðherra, formlega yfir þessu í gær. Talsmenn múslíma í Bretlandi segja þetta benda til þess að bandarísk yfirvöld fylgist með öllum múslímum, jafnvel hófsömum mönnum eins og Yusuf Islam, sem þekktur sé fyrir góðgerðarstörf. Stevens, eða Islam, sagði að vel hefði verið komið við sig í Bandaríkjunum og að hann hefði ekki verið handjárnaður. Öryggisverðirnir væru án efa hæstánægðir, því þeir hefðu allir fengið eiginhandaráritun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×