Erlent

11 látnir og tveir gíslar að auki

Ellefu fórust í sjálfsmorðsárás í Bagdad í morgun og fjöldi særðist. Mannræningjar, sem héldu tveimur Bandaríkjamönnum og Breta í haldi, segjast hafa drepið Bandaríkjamennina. Mannræningjarnir krefjast þess, að kvenföngum í haldi Bandaríkjamanna verði sleppt. Talsmenn herliðsins í Írak segja einungis tvær konur í haldi, báðar vísindamenn sem áttu þátt í gjöreyðingavopnaáætlun Saddams Hússeins. Rihab Taha, sem þekkt er sem doktor sýkill, er annar fanginn og henni verður hugsanlega sleppt í dag. Sagt er að henni verði sleppt í kjölfar þess að mál hennar var endurskoðað. Ekki er vitað hvort að mannræningjarnir sækjast sérstaklega eftir því að þessar tvær konur sleppi, eða hvort þeir vita ekki að fleiri konur eru ekki í haldi. Enn á ný varð gerð sjálfsmorðsárás í miðborg Bagdad í morgun, en í þetta skipti virðist skotmarkið hafa verið röð umsækjenda um störf hjá öryggissveitum Íraks. Þeir stóðu í röð til að láta ljósrita skilríki sín þegar bílsprengja sprakk. Fólk þeyttist í loft upp og tíu bílar brunnu til ösku. Ellefu fórust og fjöldi særðist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×