Erlent

Dóu vegna getnaðarvarnarplástra

Talið er að rekja megi dauða sautján kvenna í Bandaríkjunum til notkunar á getnaðarvarnarplástrum. Slíkir plástrar eru seldir hérlendis en landlæknir telur, að svo stöddu, ekki ástæðu til að innkalla þá. Svokallaðir getnaðarvarnarplástrar hafa verið að ryðja sér til rúms undanfarin misseri en þeim er smellt á upphandlegg líkt og reykingaplástrum og þykja handhæg getnaðarvörn. Þessir plástrar voru settir á markaðinn í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum og sama tegund er seld í apótekum hérlendis. Plástrarnir dæla hormónum beint inn í blóðið en nú hefur komið í ljós að notkun þeirra eykur líkurnar á blóðtappa og hjartastoppi. Bandaríska lyfjaeftirlitið er með málið til athugunar en telur að allt að sautján bandarískar konur á aldrinum sautján til þrjátíu ára sem notað hafa plástrana hafi látist vegna þessa. Læknar eru ekki á einu máli um hvort ástæða sé til að hafa af þessu verulegar áhyggjur þar sem sumir segja að áhættan sé svipuð og af getnaðarvarnarpillunni. Sigurður Guðmundsson landlæknir segist taka þessum tíðindum alvarlega en formleg tilkynning um málið hafi ekki borist heilbrigðisyfirvöldum hér á landi. Það er vel þekkt að notkun getnaðarvarnarlyfja, hvort sem er í töfluformi eða plástursformi, getur aukið líkur á blóðtappa- eða blóðsegamyndun í bláæðum og slagæðum. Aftur á móti dregur notkun getnaðarvarna úr tíðni blóðtappamyndunar hjá ungum konum á heildina litið, að sögn Sigurður, því þungun sem slík er líka áhættuþáttur. Nú er landlæknisembættið hins vegar að afla sér nánari upplýsinga um mál kvennanna sautján í Bandaríkjunum, áður en nokkuð verði aðhafst. Hægt er að hlusta á viðtal við landlækni með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×