Innlent

Þrír karlmenn taldir líklegir

Þrír menn hafa óopinberlega lýst því yfir að þeir hafi hug á að sækja um stöðu rektors Háskóla Íslands þegar Páll Skúlason lætur af störfum næsta vor. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa þeir Ágúst Einarsson, prófessor og fyrrverandi forseti viðskipta- og hagfræðideildar, Einar Stefánsson, prófessor í læknadeild, og Jón Torfi Jónasson, prófessor í uppeldis- og menntunarfræðum, lýst því yfir í góðra vina hópi að þeir hyggist sækjast eftir stöðunni. Það ber þó að taka fram að umræðan um þessi mál er rétt að hefjast þannig að líklegt er að enn fleiri nöfn eigi eftir að koma fram í dagsljósið þegar nær dregur kosningunum. Nafn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, prófessors í stjórnmálafræði, hefur einnig verið nefnt í þessu sambandi. Þeir sem Fréttablaðið ræddi við telja nánast útilokað að Hannes Hólmsteinn gefi kost á sér þar sem hann hafi nánast ekkert bakland í háskólasamfélaginu. Hann sé of pólitískur. Þegar um sé að ræða stöðu rektors gangi það ekki að sá sem gegni þeirri stöðu sé mjög umdeildur. Mikilvægt sé að sem mest samstaða sé um rektor Háskóla Íslands. Heimildir Fréttablaðsins telja ennfremur ólíklegt að Sigurður Brynjólfsson, prófessor í verkfræði, fari fram. Vésteinn Ólafsson, prófessor í íslenskum bókmenntum og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, bauð sig fram árið 1997 og er talið fremur ólíklegt að hann gefi aftur kost á sér í mars. Þá er talið fremur ólíklegt að Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í eðlisfræði, bjóði sig fram því hann á mjög stuttan starfsaldur eftir. Heimildir blaðsins telja einnig ólíklegt að Þórólfur Þórlindsson gefi kost á sér. Menntamálaráðuneytið mun auglýsa stöðu rektors lausa til umsóknar í janúar og rennur umsóknarfrestur út eigi síðar en sex vikum fyrir kjördag, en kosið verður um miðjan mars. Prófessorar eða dósentar sem ráðnir eru ótímabundið við háskólann geta aðeins boðið sig fram til rektors. Kosið verður í almennum kosningum þar sem allir innan háskólasamfélagsins hafa atkvæðisrétt. Atkvæði fólks hefur hins vegar mismunandi vægi. Þannig gilda atkvæði háskólakennara og sérfræðinga og annarra þeirra starfsmanna sem hafa háskólapróf, sem 60 prósent greiddra atkvæða. Atkvæði stúdenta gilda sem 30 prósent greiddra atkvæða og atkvæði annarra atkvæðisbærra aðila gilda sem 10 prósent greiddra atkvæða alls.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×