Erlent

Mómæla umbótum

Tugir þúsunda ævareiðra Þjóðverja ruddust út á götur borga og bæja í dag til að mótmæla fyrirhuguðum umbótum á velferðarkerfinu. Schröder kanslari segir umbætur óumflýjanlegar, en almenningur skellir skollaeyrum við orðum hans. Þær umbætur sem Schröder segir nauðsynlegar felast meðal annars í því að skera niður bætur til þeirra sem glíma við atvinnuleysi í lengri tíma og harðari úrræði til að neyða atvinnulausa til að taka hvaða starfstilboðum sem er. Þetta líkar Þjóðverjum lítt og undanfarnar vikur hafa þeir látið óánægju sína í ljós á götum úti. Mótmælin náðu þó nýju hámarki í dag þegar skipuleggjendur gerðu ráð fyrir meira en 200 þúsund mótmælendum í yfir 200 borgum og bæjum víða um land. Mest eru mótmælin þó í Austur-Þýskalandi gamla, þar sem atvinnuleysi er mikið og stórum hluta almennings finnst ennþá að það sé hlutverk ríkisins að sjá fyrir þeim sem ekki geta það sjálfir. Mánudagsmótmæli eins og þau sem fram fóru í dag eru raunar sögð upprunnin í Leipzig, þar sem dauðuppgefnir borgarar mótmæltu spillingu og stöðnuðu kerfi fyrir fimmtán árum. Þó að deila megi um þá söguskýringu er það mat margra að þau mótmæli hafi markað upphaf endaloka kommúnistaveldisins austanmegin Berlínarmúrs. Leipzig var á ný þungamiðja mótmælanna í dag, en þar skaut Oscar Lafontain, gamall mótherji Schröders kanslara, upp höfðinu og hafði hátt. Stjórnmálaskýrendur segja þetta hugsanlega upphaf mikilla átaka á meðal Jafnaðarmanna, aðrir telja Lafontaine reyna með ósmekklegum hætti að blása lífi í steindauðan stjórnmálaferil sinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×