Erlent

Powell fór ekki til Aþenu

Grískir andófsmenn fögnuðu sigri í dag og sögðust hafa þvingað Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til að hætta við að heimsækja Ólympíuleikana í Aþenu. Ekki aldeilis segja aðstoðarmenn Powells; ráðherrann hefur bara of mikið að gera.  Powell ætlaði að fara til Aþenu á morgun til að sitja lokaathöfn Ólympíuleikanna en í dag var ferðinni skyndilega aflýst. Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins segir að Powell hafi hætt við ferðina vegna anna við að sinna málefnum Íraks og Súdans. Margir telja hins vegar að Powell hafi viljað komast hjá því að mæta andstæðingum sínum sem í gær og í dag fjölmenntu í mótmælagöngum í Aþenu og vönduðu Powell ekki kveðjurnar. Málið er nokkuð vandræðalegt fyrir grísk stjórnvöld því túlka má þessa ákvörðun Powells sem vantraust á skipulag öryggismála í kringum leikana. Giselle Davis, talsmaður Ólympíunefndarinnar, var stutt í spuna þegar hún var spurð um málið og sagði nefndina ekki einbeita sér að neinum einum gesti sem kæmi á leikana. 200 hundruð þúsund manns nytu Ólympíuleikanna í Aþenu og því hefði hún ekkert sérstakt að segja um Powell. Powell hefur í „sárabætur“ ákveðið að sækja Grikki heim í byrjun október.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×