Erlent

Blóðbað í Najaf

Blóðsúthellingar einkenndu fyrsta dag tilrauna æðsta klerks sjíta til friðarumleitana í helgu borginni Najaf í dag. Þangað eru tugir þúsunda Íraka komnar til að hlýða kalli trúarleiðtoga. Vonir um að Ali Husseini al-Sistani, æðsti klerkur Sjíta í Írak, gæti borið klæði á vopnin í Najaf, dofnuðu í dag þegar hann kom ásamt fylgdarliði til borgarinnar. Skömmu áður var gerð árás á mosku í nágrannaborginni Kúfa, þar sem hundruð stuðningsmanna harðlínuklerksins al-Sadrs bjuggu sig undir að halda til Najaf. Sprengjum var varpað á moskuna og féllu 25. 20 stuðningsmenn al-Sistanis féllu einnig þegar skotið var á hóp þeirra í Kúfa. Í Najaf féllu tíu fylgismenn al-Sistanis þegar byssumenn hófu skothríð á lögreglu sem reyndi að stýra mannfjöldanum sem kominn var til borgarinnar. Tugir þúsunda hafa haldið þangað til að hlýða kalli bæði al-Sistanis og al-Sadrs. Þrátt fyrir mikla spennu í borginni hermdu arabískir fjölmiðlar síðdegis að umleitanir væru hafnar á milli al-Sistanis og manna al-Sadrs. Al-Sistani hafði áður kynnt hugmyndir um að Mehdi-sveitir al-Sadrs hyrfu úr Imam Ali moskunni og leggðu niður vopn, og að hersveitir í kring hörfuðu. Til að liðka fyrir samningum hét forsætisráðherra Íraks, Iyad Allawi, sólarhrings vopnahlé. Engu að síður voru líkhúsin full í lok dags og hundruðir lágu slasaðir á sjúkrahúsum í Kúfa og Najaf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×