Erlent

Svíar lækka áfengisskattinn

Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur lagt til að áfengisskattar verði lækkaðir um 40 prósent til að sporna við að fólk fari utan til áfengiskaupa. Áfengisverð er hátt í Svíþjóð og er algengt að fólk fari til Danmerkur, Finnlands eða Eistlands til að kaupa vín. Sænsk yfirvöld leggja 1880 íslenskar krónur á hvern lítra af sterku áfengi. Ef sænska þingið samþykkir tillögu ríkisstjórnarinnar í haust lækkar álagningin niður í 1129 krónur á hvern lítra og smásöluverð mun lækka að jafnaði um 30 prósent. Sænsk yfirvöld gera ráð fyrir að lækkunin muni minnka innflutning á áfengi um fimmtán prósent á næsta ári. Mun lægri álagning er á léttvíni og bjór. Á hvern lítra af bjór leggur ríkið 69 íslenskar krónur, en 207 krónur á léttvín. Það gæti þó einnig breyst í haust þar sem Evrópusambandið hefur sagt að Svíar megi ekki leggja meira á bjór en léttvín og þurfa hugsanlega að sæta dómsúrskurði jafni þeir ekki álagninguna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×