Erlent

Ætla að hunsa úrskurð dómstólsins

Alþjóðadómstólnum í Haag er kennt um sprengjuárás í Tel Aviv í morgun. Ísraelar segja árásina sýna nauðsyn öryggismúrsins og ætla að hunsa úrskurð dómstólsins um að hann brjóti í bága við alþjóðalög. Sprengjan, sem var um tvö kíló að vigt, var falin í runnum nálægt stoppistöð við aðalstrætisvagnaskiptistöð borgarinnar. Hún var fyllt járnboltum og skrúfum, en runnarnir virðast hafa dregið nokkur úr skaðanum sem málmruslið hefði annars valdið. Sprengjan sprakk um leið og strætisvagn renndi upp að stöðinni á háannatíma í morgun, en sunnudagur er fyrsti virki dagur vikunnar í Ísrael. Rúður bifreiða og bygginga í nánd splundruðust, þar sem sprengingin var gríðaröflug. Kona fórst í sprengingunni og yfir 30 særðust, þar af nokkrir alvarlega. Ariel Sharon, forsætisráðherra kenndi úrskurði Alþjóðadómstólsins um. Hann sagði þetta fyrsta ódæðið sem Palestínumenn hefðu framið með stuðningi og samþykki alþjóða dómstólsins í Haag. Þá sagði hann Ísraelsríki bera skylda til að vernda borgara sína. Dómurinn úrskurðaði öryggismúr Ísraels ólöglegan, en ísraelsk stjórnvöld hyggjast virða úrskurðinn að vettugi. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, telur það óráðlegt. Hann sagði að þó allir væru sammála um að ríkisstjórn Ísraels bæri ábyrgð og skylda til að vernda borgara sína, þá yrði það vera í samræði við alþjóðalög. Það yrði að virða hagsmuni Palestínumanna auk þess sem Ísrael sem hernámsþjóð bæri ábyrgð á velferð Palestínumanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×