Erlent

Pólitísk hefnd?

Yukos rambar á barmi gjaldþrots. Samkvæmt BBC fylgir aðgerðin gegn olíufélaginu í kjölfar kröfu þess um að stjórnvöld leyfðu fyrirtækinu að fá aðgang að frystum bankareikningum sínum til að borga 3,4 milljarða dollara skuld við ríkið vegna meintra skattsvika árið 2000. Kröfunni var neitað og fyrirtækinu gefinn frestur fram á mánudag til að borga skuldina. Yukos á yfir höfði sér að þurfa að borga svipaða upphæð fyrir árið 2001. Aðalhluthafi Yukos, Mikhail Khodorkovskí, hefur verið ákærður fyrir skattsvik og standa réttarhöld yfir honum nú yfir. Því er haldið fram aðgerðir ríkisvaldsins gegn Yukos séu persónuleg hefnd gegn Khodorkovskí sem fyrir handtöku sína á síðasta ári veitti fé til stjórnmálaflokka sem eru andsnúnir Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Pútín segist hins vegar ekki hafa neinn áhuga á því að Yukos, sem er stærsti olíuframleiðandi Rússlands, verði gjaldþrota. Margir telja hins vegar að rússnesk stjórnvöld vilji þröngva ráðamönnum fyrirtækisins út í horn til að ríkisvaldið eigi auðveldara með að seilast til áhrifa innan þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×