Erlent

Ófriðarástand í Súdan

Ríkistjórn Súdans segist ætla að afvopna arabíska herflokka sem þröngvað hafa tugþúsundir manna til að yfirgefa heimili sín í Darfur-héraði í vesturhluta landsins. Samkvæmt BBC hefur um ein milljón manna flúið héraðið og meira en 10.000 manns fallið í átökunum. Arabísku herflokkarnir hafa verið sakaðir um þjóðarmorð. Kofi Annan, aðalritari SÞ, lauk nýverið ferð um héraðið þar sem hann heimsótti m.a. flóttamannabúðir í nágrannaríkinu Tsjad sem liggur að Darfur-héraði. Annan ræddi m.a. við forsætisráðherra Súdans og krafðist hertra aðgerða ríkisstjórnarinnar í héraðinu sem og aukinnar aðstoðar handa þurfandi íbúum þess. Loforð ríkistjórnarinnar er sett fram í kjölfar heimsóknar og þrýstings frá Annan og SÞ. Talsmaður mannréttindasamtakanna Human Rights Watch segir súdönsku ríkisstjórnina þó nær aldrei uppfylla loforð sín. Þann 15. júlí mun fara fram sáttafundur á milli stríðandi fylkinga í héraðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×