Erlent

Lögregla ræðst inn hjá Yukos

Sérsveitir rússnesku lögreglunnar réðust inn í aðalstöðvar Yukos-olíufélagsins í Moskvu í dag. Fyrir fáum dögum neituðu yfirvöld í Rússlandi að veita Yukos aðgang að frystum eignum sínum svo að fyrirtækið gæti greitt skattaskuldir sínar. Á fimmtudaginn var Yukos gefinn fimm daga frestur til að greiða rússneskum skattayfirvöldum 3,4 milljarða bandaríkjadala vegna vangoldinna skatta frá árinu 2001. Yfirmenn Yukos fóru þess á leit við yfirvöld að fá eigur fyrirtækisins til baka svo unnt væri að selja hluta þeirra til þess að greiða skuldina. Yfirvöld, sem frystu eignir fyrirtækisins eftir að aðaleigandi þess, Mikhaíl Khodorkovsky, var hnepptur í gæsluvarðhald, neituðu hins vegar beiðninni. Óljóst er hvaða tilgangi aðgerðirnar í dag þjóna þar sem fyrrgreindur frestur rennur ekki út fyrr en á mánudaginn. Ólíklegt er því að stjórnvöld hafi rétt til yfirtöku höfuðstöðva fyrirtækisins fyrr en þá. Að sögn talsmanna fyrirtækisins fyrr í dag stóð þó ekki til að veita aðgerðum lögreglu mótspyrnu. Yukos, sem er stærsta olíufélag Rússlands, skilar af sér 1,7 milljónum tunna af olíu á degi hverjum og starfsmenn fyrirtækisins eru yfir 100 þúsund. Kæmu yfirvöld í Rússlandi fyrirtækinu á kné yrði það mikið áfall fyrir ímynd Rússlands og gæti minnkað til muna framleiðni í olíuiðnaði sem er helsta tekjulind landsins. Margir telja aðgerðir yfirvalda í garð Yukos og Khodorkovskys vera hefndaraðgerðir vegna andstöðu Khodorkovskys við stefnu Vladimirs Pútín, Rússlandsforseta. Réttarhöldin yfir Khodorkovsky hefjast á nýjan leik 12. júlí næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×