Erlent

Fangar á Kúbu geta höfðað mál

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur úrskurðað að bandarísk stjórnvöld hafi rétt á að halda bandarískum og erlendum ríkisborgurum sem grunaðir eru um að vera tengdir hryðjuverkum í haldi. Rétturinn úrskurðaði hinsvegar jafnframt að menn sem eru í haldi stjórnvalda vegna þessa geti leitað réttar síns fyrir bandarískum dómstólum, jafnvel þó að þeir séu ekki í fangelsi í Bandaríkjunum. Úrskurðurinn þykir vera mikill ósigur fyrir bandarísku ríkisstjórnina sem hafði farið fram á að geta haldið mönnum sem grunaðir eru um að tengjast hryðjuverkum í haldi eins lengi og forsetinn teldi nauðsynlegt. Í kjölfar úrskurðarins er búist við holskeflu mála fanga sem hafa setið í fangabúðunum í Guantanamo á Kúbu síðan hryðjuverkaárásirnar voru gerðar á World Trade Center í New York. Undirréttur í Bandaríkjunum hafði áður úrskurðað að bandarískir dómstólar hefðu ekki lögsögu yfir þessum föngum. Hæstiréttur hefur nú úrskurðað á annan veg en í úrskurðinum tekur hann hins vegar hvorki afstöðu til hugsanlegrar sektar eða sakleysis fanga né mannréttindarmála sem tengjast meðferð á föngum í fangabúðunum. Um 600 fangar af um það bil 40 þjóðernum eru í fangelsinu á Kúbu án þess að þeim hafi verið birt ákæra. Fangarnir voru flestir handteknir í Afganistan og Pakistan þegar Bandaríkjamenn steyptu stjórn talíbana frá völdum. Bandarísk stjórnvöld telja fangana hættulega þar sem þeir tengist annaðhvort talíbana-stjórninni fyrrverandi eða al-kaída-samtökunum. Búist er við að meginþorri fanganna muni krefjast þess að mál þeirra verði tekin fyrir þar sem þeir efist um lögmæti þess að þeim skuli vera haldið í fangabúðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×