Erlent

Fólk féll í yfirlið vegna T-Rex

Breska náttúruminjasafnið hefur hætt við að leyfa gestum sínum að upplifa andremmu risaeðlunnar Tyrannosaurus Rex. Fyrirtækið Dale Air, sem náttúruminjasafnið bað um að skapa slíka lykt, sérhæfir sig í að búa til alls konar ilman. Þeir hafa til dæmis búið til lykt af kókoshnetuolíu fyrir breska ferðaskrifstofukeðju sem vildi fá viðskiptavini til þess að staldra lengur við á söluskrifstofum sínum. Dale Air framleiddi einnig margs konar lykt fyrir þjóðminjasafnið í Jórvík. Meðal annars geta menn hnusað af handarkrikanum á styttu af víkingi, ef þeir kæra sig þá um það, því víkingar voru víst lítið fyrir að nota svitalyktareyði. Þegar breska náttúruminjasafnið bað Dale Air um lyktina af andardrætti risaeðlunnar Tyrannosaurus Rex var haft samband við bæði steingervingafræðinga, dýralækna og meltingafræðinga. Það var margt sem þurfti að taka með í reikninginn, t.d. rotnandi kjöttægjur á milli tannanna á eðlunni. Þegar lyktin var loksins tilbúin var bara einn galli við hana. Fnykurinn var svo ferlegur að fólki lá við uppköstum og yfirliði. Breska náttúruminjasafnið hefur því ákveðið að láta sér nægja milda lykt af fenjasvæði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×