Erlent

Hefur litla trú á að NATO hjálpi

Bush Bandaríkjaforseti vill að Evrópuríki og NATO komi að uppbyggingarstarfinu í Írak, en virðist sjálfur hafa litla trú á að það gangi eftir. Hann er staddur í Evrópu á leið til leiðtogafundar NATO í Istanbúl. Á fundum með nokkrum þjóðarleiðtogum hyggst Bush ræða stöðuna í Írak og reyna að afla stuðnings við starfið þar. Það er ekki á honum að heyra að hann trúi því, að ríki Atlantshafsbandalagsins rétti fram hjálparhönd. Hann segist ekki viss um hann fái fleiri hermenn frá Natolöndunum, þau lönd sem sent hafi herlið megi ekki við meiri og önnur hafi ekki áhuga á að senda hermenn. Hann vonast þó til að geta hleypt þjálfunarverkefninu af stokkunum. Allawi forsætisráðherra Íraks hafi beðið um aðstoð við að þjálfa lögreglu og herlið svo hægt verði að gera ástandið í landinu stöðugt. Hann telur þó ekki að Evrópuþjóðir séu almennt andsnúnar stríðinu í Írak og vilji þess vegna ekki koma að starfinu þar. Þá gefur hann lítið fyrir skoðanakannanir sem gefa til kynna að staða hans fari hríðversnandi og bandarískur almenningur hafi sífellt minni trú á honum. Hann segir að sagan muni dæma sig og verk sín og hann nenni ekki að eltast við vinsældarkannanir. Hann ætli bara að vinna sína vinnu við að taka ákvarðanir sem hann telur vera réttar fyrir þjóð sína og heiminn allan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×