Erlent

Meirihluti telur stríðið mistök

Í fyrsta sinn frá því í stríðinu í Víetnam telur nú meirihluti Bandaríkjamanna að hernaðaraðgerðir hafi verið mistök. Ný könnun leiðir í ljós að 55 prósent aðspurðra telja stríðið í Írak hafa dregið úr öryggi Bandaríkjanna. Meirihluti Bandaríkjamanna telur að stríðið í Írak hafi verið mistök. 54 prósent aðspurðra í könnun USA Today og CNN eru nú á því, að aldrei hefði átt að senda hermenn til Íraks. Þetta er í fyrsta sinn síðan í stríðinu í Víetnam að almenningsálitið er á þessa leið. Breytingin hefur orðið á skömmum tíma, því fyrir þremur vikum voru 41 prósent á þessari skoðun. Í fyrsta sinn telur nú einnig meirihlutinn að meiri líkur séu á hryðjuverkum í Bandaríkjunum fyrir vikið. 55 prósent aðspurðra telja Bandaríkin líklegra skotmark en áður, en fyrir hálfu ári var meirihlutinn á því að stríðið í Írak myndi auka öryggi landsins. Könnunin var gerð fyrir árásahrinu gærdagsins, en samhæfðar árásir í fimm borgum kostuðu yfir hundrað manns lífið. Yfirvöld í Washington telja nú nauðsynlegt að senda fimmtán þúsund manna liðsauka til Íraks verði ekki breyting á ástandinu í landinu. Þetta eru slæm tíðindi fyrir Bush forseta og ekki þau fyrstu sem kannanir boða í þessari viku. Þrátt fyrir þetta hefur dregið saman með Bush og keppinaut hans John Kerry, því í síðustu könnun USA Today og CNN hafði Kerry sex prósentu forskot. Nú eru þeir nánast jafnir. Meirihluti aðspurðra kveðst einnig treysta Bush betur en Kerry til að standa sig í embætti. Könnunin leiðir þó í ljós að fleiri telja að Kerry héldi betur utan um efnahagsmál en Bush, eða 53 prósent á móti 40%.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×