Erlent

Tugir látast í fjölda árása

Hver dagurinn á fætur öðrum ber í för með sér nýja staðfestingu þess að ótti manna við árásir í aðdraganda valdaafsals hernámsliðsins í Írak ætti við rök að styðjast. Varla líður sá dagur að ekki berist tíðindi af árásum og morðum og var gærdagurinn einn sá blóðugasti. Um níutíu manns létu lífið í árásum á fjölda staða í Írak og á fjórða hundrað særðist. Mest var mannfallið í Mósúl. Þar létust 45 einstaklingar hið minnsta og á þriðja hundrað særðist í röð sprengjuárása. Víða var ráðist á lögreglustöðvar og virtust íraskir lögreglumenn eiga í miklum vanda við að verjast árásarmönnum. Maður í búningi lögreglumanns sprengdi sjálfan sig í loft upp við varðstöð í Bagdad og banaði fjórum íröskum hermönnum. Ráðist var að herbílalest sem átti leið um Bagdad og einum hermanni banað. Andspyrnumenn réðust á fjórar lögreglustöðvar í borginni, vopnaðir vélbyssum, handsprengjum og sprengjuvörpum. Þar tókst lögreglumönnum að halda aftur af árásarmönnum. Hörðustu bardagarnir áttu sér stað í Baqouba, norðaustur af Bagdad. Þar féllu tvær bandarískir hermenn og sjö særðust. Bandarískar herflugvélar vörpuðu sprengjum á andspyrnumenn nærri fótboltavelli borgarinnar en ekki fengust fréttir af mannfalli í þeirra röðum. Andspyrnumenn náðu tveimur lögreglustöðvum í borginni á sitt vald og eyðilögðu heimili lögreglustjórans. Þegar líða tók á daginn sáust fáir á ferli í borginni aðrir en hermenn og andspyrnumenn. Samtök sem tengjast al-Kaída hafa lýst ábyrgð á árásunum á hendur sér. "Við munum ráða niðurlögum þeirra. Við myljum þá duftinu smærra," sagði Iyad Allawi, forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar sem tekur formlega við völdum á miðvikudag, um þá sem staðið hafa fyrir árásum síðustu daga. Hann sagði markmið árásarmanna aðeins eitt, að skemma fyrir lýðræðisferlinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×