Erlent

Tæplega hundrað týndu lífinu

Komið hefur í ljós 92 létust í árásum í sjálfstjórnarhéraðinu Ingúsetíu í suðurhluta Rússlands aðfaranótt þriðjudags. Þá særðust 120 í árásunum. 67 hinna látnu voru liðsmenn rússneskra öryggissveita. Öryggissveitir fengu upplýsingar um hóp vopnaðra manna í bifreiðum um hálfri klukkustund áður en árásirnar hófust á svæðið sem liggur við hlið hinnar stríðshrjáðu Tjetjeníu. Að sögn lögreglumanns leit út fyrir að árásirnar hefðu verið skipulagðar í kringum vaktaskipti lögregluþjóna á svæðinu. Margir hermannanna sem létust voru ráðnir af dögum í umsátrum meðan lögregluþjónar voru skotnir eftir að þeir voru kallaðir út vegna árásanna. Talið er að árásarmennirnir hafi verið allt að tvö hundruð talsins. Þúsundir rússneskra hersveita hafa streymt inn í Ingúsetíu til að leita árásarmannanna en talið er að þeir hafi komist undan inn í þykkan skóginn sem umlykur Tjetjeníu, yfir fjöllin til Georgíu eða farið til baka til heimabæja sinna í Ingúsetíu. Ekki er talið að árásarmennirnir séu Tjetjenar, heldur að meirihluti þeirra sé frá Ingúsetíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×