Erlent

Tvær sprengjuárásir í Tyrklandi

Að minnsta kosti þrír létust og fimmtán særðust í sprengingu í strætisvagni í Istanbúl í Tyrklandi í dag. Þá særðust þrír í minni sprengingu fyrir utan hótel í Ankara í dag. Árásirnar eru taldar tengjast leiðtogafundi NATO sem verður í Istanbúl í næstu viku. Sprengingarnar tvær urðu með aðeins tveggja klukkustunda millibili. Síðari sprengingin, sem átti sér stað í strætisvagni í Istanbúl, var mun öflugri en sú fyrri í Ankara. Strætisvagninn var á leið framhjá háskólasjúkrahúsinu í Istanbúl þegar sprengjan sprakk. Þrír farþega vagnsins létust og fimmtán særðust í sprengingunni sem eyðilagði allan framhluta strætisvagnsins. Aðeins tveimur klukkustundum áður sprakk sprengja um 25 metrum fyrir utan Hilton hótelið í Ankara þar sem þrír særðust, þar af tveir lögreglumenn. Ekki er vitað hver ber ábyrgð á árásinni í Istanbúl en grunur leikur á að árásarmaðurinn sé átján ára karlmaður sem steig úr strætisvagninum aðeins örskömmu áður en sprengjan sprakk. Öfgahópur Marxista hefur lýst tilræðinu í Ankara á hendur sér. Talið er að sprengjuárásirnar í dag tengist leiðtogafundi NATO sem fram fer í Istanbúl í næstu viku þar sem meðal annarra verða viðstaddir George Bush, sorseti Bandaríkjanna, Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Jaques Chirac, forseti Frakklands. Fjöldi sprengjuárása hefur átt sér stað í Tyrklandi undanfarið og leggja þarlendir ráðamenn allt kapp á að herða öryggisgæslu fyrir leiðtogafundinn. Stórt svæði í miðborg Istanbúl verður girt af auk þess sem eftirlitsflugvélar munu sveima yfir borginni dagana sem fundurinn stendur yfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×