Erlent

Sexföldun í smiti á lömunarveiki

Mesti lömunarveikisfaraldur síðari ára geisar nú í Nígeríu og hætta er á að faraldurinn dreifist til Mið- og Vestur-Afríku. Samkvæmt upplýsingum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar hafa nú þegar sex sinnum fleiri börn smitast af sjúkdómnum í ár en á síðasta ári. Faraldurinn á upptök sín í Kano í Nígeríu þar sem 257 börn hafa þegar smitast af lömunarveiki. Efasemdir um öryggi bólusetninga urðu til þess að þeim var hætt um tíma með fyrrgreindum afleiðingum. Börn undir fimm ára aldri eru helstu fórnarlömb lömunarveiki sem stafar af vírus er ræðst á taugakerfið og getur valdið algerri lömun og í kjölfarið dauða. Frá árinu 1988 hefur yfir þrem milljörðum bandaríkjadala verið eytt í baráttuna gegn lömunarveiki. Veikin hefur nú komið upp í tíu löndum sem talið var að væru laus við lömunarveiki, þar á meðal Súdan, Chad, Burkina Faso og Fílabeinsströndinni. Forsvarsmenn UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, segja hættu á að heilbrigðisharmleikur, sem koma megi í veg fyrir, eigi sér stað ef ekki verður brugðist fljótt við. Allt kapp þurfi að leggja á að bólusetja 74 milljónir barna í 22 löndum en til þess þurfi fjármagn. Talið er að bæta þurfi 100 milljónum bandaríkjadala við það fjármagn sem nota átti til bólusetninga í Afríku á þessu ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×