Erlent

Saddam Hússein segist líða vel

Saddam Hússein, fyrrverandi forseti Íraks, segir í bréfi sem hann hefur sent fjölskyldu sinni að sér líði vel andlega og þakkar guði almáttugum fyrir það. Bréfið var vandlega ritskoðað af hernaðaryfirvöldum og níu af fjórtán línum þess strikaðar út. Það var lögfræðingur Saddams sem afhenti bandaríska tímaritinu Newsweek bréfið sem ritað er af honum sjálfum. Þrátt fyrir að Saddam segi í bréfinu að sér líði afar vel andlega er haft eftir lögfræðingi hans að hann megi þola pyntingar í líkingu við þær sem átt hafa sér stað í Abu Ghraib fangelsinu. Á líkama Saddams séu nýleg sár sem hljóti að vera tilkomin vegna illrar meðferðar í fangavistinni. Lögfræðingurinn segir brotið á mannréttindum Saddams og hann hafi sent fjölskyldu sinni mun fleiri bréf en það sem loks komst til skila að hluta. Þau bréf hafi verið ritskoðuð og ekki komist til skila. Yfirmenn Bandaríkjahers hafa hins vegar ítrekað lagt áherslu á að farið sé vel með Saddam og að hann njóti allra tilskilinna mannréttinda. Ráðamenn í Írak hafa krafist þess að Saddam verði framseldur til landsins eftir valdaskiptin sem fram fara 30. júní en George Bush hefur útilokað allt slíkt nema að ströngustu öryggisskilyrðum uppfylltum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×