Erlent

Þverrandi trú á getu Bush

Í fyrsta sinn frá því að mælingar hófust er nú meira en helmingur Bandaríkjamanna á því, að stríðið í Írak hafi ekki verið fórnanna virði. Vinsældir Bush forseta fara þverrandi, en fylgi við keppinaut hans, Kerry, eykst. Þetta kemur fram í nýrri könnun sjónvarpsstöðvarinnar ABC og Washington Post. Svo virðist sem almenningur í Bandaríkjunum hafi í vaxandi mæli áhyggjur af sífelldu mannfalli í Írak og langtímaáhrifum stríðsins þar. Þessar áhyggjur eru taldar meginástæða þess, að forskot George Bush, forseta Bandaríkjanna, á demókratann John Kerry, hefur snarminnkað, þegar spurt er hvor sé betur til þess fallinn að stýra baráttunni gegn hryðjuverkamönnum. Almenningur í Bandaríkjunum hefur þverrandi trú á getu Bush forseta til að sigra í hryðjuverkastríðinu, aðeins helmingur er nú sáttur við frammistöðu hans í þeirri baráttu, átta prósentum minna en í síðasta mánuði og 13 prósentum minna en í apríl. 47 % telja Bush best til þessa verks fallinn, en 48 prósent velja frekar Kerry. Fyrir tveimur mánuðum var munurinn á Bush og Kerry 21 prósent. Þetta eru vond tíðindi fyrir Bush, sem hefur hreykt sér af eigin frammistöðu í baráttunni gegn hryðjuverkum og í stríðsrekstrinum í Írak. Fram til þessa hefur hann fengið góða einkunn fyrir frammistöðu sína, en sífelldar fregnir af hryðjuverkum og mannfalli hafa dregið úr trausti kjósenda. Sé litið til sögunnar, hafa forsetar, sem sækjast eftir endurkjöri og njóta jafn lítils trausts á sama tíma í kosningabaráttunni mjög átt á brattann að sækja. Þó að hryðjuverkastríðinu og stríðinu í Írak sé iðulega blandað saman, er einnig spurt sérstaklega um Írak og þar hefur einkunn Bush hækkað nokkuð, og ánægja Bandaríkjamanna með frammistöðu hans í efnahagsmálum hefur aukist. Kerry hefur samt vinninginn í lykilmálaflokkum, en 21 prósenti fleiri telja að hann standi sig betur í heilbrigðismálum en Bush, í skattamálum er munurinn 13 prósent; menntamálum 10 prósent; í alþjóðamálum átta og efnahagsmálum fimm prósent. Þessu til viðbótar hafa 48 Nóbelsverðlaunahafar lýst yfir stuðningi við Kerry og gagnrýna þeir jafnframt Bush fyrir að virða vísindin að vettugi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×