Erlent

Vilja að Bush beri vitni

George Bush, forseti Bandaríkjanna, og Donald Rumsfeld, gætu neyðst til að bera vitni við réttarhöld yfir hermönnum, sem sakaðir eru um illa meðferð fanga í Írak. Þrír hermenn voru leiddir fyrir dómara í morgun, þar sem þeim voru kynnt ákæruatriðin og lögmönnum þeirra gefin kostur á að kalla til vitni. Verjendur mannanna vilja að yfirmenn bandaríska heraflans, þeirra á meðal Ricardo Sanchez yfirmann sveita í Írak, beri vitni. En helst vilja lögmennirnir, að George Bush, Bandaríkjaforseti, og Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra, beri vitni. Þeir eru æðstu yfirmenn hersins og segir einn lögmannanna þá bera ábyrgð á því, að Genfarsáttmálarnir hefði verið virtir að vettugi í hryðjuverkastríðinu. Hann sagði Bush hafa lýst því yfir nýlega, að sáttmálarnir væru ógildir. Skjólstæðingi sínum til varnar sagði lögmaðurinn, að hann hefði hvorki fengið kynningu á Genfarsáttmálunum né þjálfun til að starfa í fangelsi. Honum hafi verið skipað að hrista upp í föngum og búa þá undir yfirheyrslur, svo að hægt yrði að þyrma lífi bandarískra hermanna í Írak. Yfirmenn hafa skipað fyrir um þá meðferð, sem fangarnir hluti. Dómarinn í málinu úrskurðaði einnig, að ekki mætti rífa Abu Ghraib fangelsið, eins og til stóð, þar sem það væri vettvangur glæps. Af þeim sökum yrði fangelsið að standa óbreytt í núverandi mynd þar til réttarhöldum lyki. Bush Bandaríkjaforseti greindi frá því fyrir skömmu, að til stæði að jafna fangelsið við jörðu og byggja nýtt öryggisfangelsi í staðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×