Erlent

My life fær misjafna dóma

Þreytandi, illa skrifuð, sjálfhverf, sérhlífin... með þessum orðum lýsir bókmenntagagnrýnandi New York Times ævisögu Bills Clintons, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Bókin kemur út á morgun, en er þegar orðin metsölubók og bæði umtöluð og umdeild. Bókmenntagagnrýnandi New York Times fer hörðum orðum um ritsmíð Clintons í dag, og segir hana langdregna og þreytandi, illa skrifaða, sjálfhverfa og sérhlífna og hreinlega leiðinlega. Rétt eins og forsetatíð Clintons hafi sýnt, hafi hann margt til brunns að bera en sé of agalaus og fullur af sjálfum sér til að beita þeim hæfileikum til að skrifa sæmilega bók. Aðrir gagnrýnendur fara mildar í gagnrýni sína og hrósa Clinton fyrir grípandi skrif um æskuárin, sem mótuðu persónuleika hans. Um miðbik bókarinnar hefst umfjöllun um forsetatíðina og þá dregur úr spennunni. Heldur þurr upptalning er megin niðurstaða gagnrýnenda, sem undrast að Clinton skuli ekki nota tækifærið og gera hreinna fyrir dyrum en raun ber vitni. Hann neitar til að mynda að hafa áreitt Paulu Jones kynferðislega, en segir ekki hvað gerðist kvöldið sem þau voru saman á hótelherbergi. Hann segir Whitewaterhneykslið ekki hafa verið stórmál, en útskýrir ekki hver hlutur þeirra Hillary var í málinu. Hann fjallar einnig um Monicu Lewinsky, og þegar hann viðurkenndi loks fyrir eiginkonu sinni og dóttur að hafa logið til um sambandið. Eftir það segist hann hafa sofið á sófanum í Hvíta húsinu í tvo mánuði. Clinton er nú á fleygiferð við að kynna bókina og veitti meðal annars Dan Rather viðtal í sextíu mínútum, sem sýndar voru vestra í gærkvöldi. Viðmælandi Clintons hjá BBC, David Dimbleby, tók forsetann fyrrverandi engum vettlingatökum og spurði hann ítrekað um samband hans við Monicu Lewinsky. Clinton missti stjórn án sér, þrumaði öskuillur yfir Dimbleby og kvartaði sáran undan óréttlátri og miskunnarlausri meðferð fjölmiðla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×