Erlent

Uppstokkun í ríkisstjórn Noregs

Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, stokkaði upp í ríkisstjórn sinni í morgun. Hann kynnti Haraldi Noregskonungi breytingarnar fyrir stundu. Tveir nýir ráðherrar voru kynntir til sögunnar. Varaformaður Kristilega þjóðarflokksins, Knut Arild Hareide sem er einungis 31 árs, verður nýr umhverfisráðherra, og Thorhild Widvey verður nýr olíu- og orkumálaráðherra en hún var aðstoðarráðherra í norska utanríkisráðuneytinu. Aðrar breytingar sem Bondevik hefur gert á ríksstjórn sinni eru þær að Dagfinn Hoybraten, sem gegnt hefur embætti heilbrigðisráðherra, verður félags- og atvinnumálaráðherra, en Ansgar Gabrielsen, verður færður úr viðskiptaráðuneytinu yfir í heilbrigðisráðuneytið. Áður en ljóst var hvaða breytingar yrðu gerðar töldu norskir fjölmiðlar að Gabrielsen yrði látinn fjúka en hann virðist sloppinn. Annar ráðherra sem er sloppinn er Svein Ludvigsen sjávarútvegsráðherra en líklegt var talið að honum yrði skipt út. Í stól viðskiptaráðherra sest Börge Brende, sem var umhverfisráðherra. Tveir ráðherrar þurfa síðan að taka pokann sinn, þau Ingjerd Schou, fulltrúi Hægri flokksins, sem gegndi embætti félagsmálaráðherra, og Einar Steensnes, fulltrúi Kristilega þjóðarflokksins, en hann var olíu- og orkumálaráðherra. Þau hverfa til baka á norska Stórþingið. Kjell Magne Bondevik segist sannfærður um að þessi uppstokkun muni styrkja norsku ríkisstjórnina en hann kynnti Haraldi Noregskonungi breytingarnar nú fyrir hádegi. Þetta eru fyrstu breytingarnar sem gerðar eru á stjórninni síðan haustið 2001 og fylgja þær í kjölfar breytinga á forystu bæði Kristilega þjóðarflokksins og Hægri flokksins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×