Innlent

Bensínlítrinn lækkar

Bensínlítrinn hefur lækkað eftir nær samfellda hækkun í tvo mánuði og er undir hundrað krónur á tilteknum bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Atlantsolía reið á vaðið í gærmorgun og lækkaði bensínverð í 99,90 krónur á stöðvum sínum. Keppinautar félagsins lækkuðu í kjölfarið verð hjá sér um krónu á lítrann. Hugi Hreiðarsson, talsmaður Atlantsolíu, sagði að ástæðan fyrir verðlækkuninni í gær væri lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu. "Við fylgjumst grannt með þróun heimsmarkaðsverðs. Við kaupum eldsneyti okkar frá Evrópu og fylgir verðið því markaðsverði í Rotterdam. Verðlækkun í síðustu viku gaf okkur tilefni til þessarar lækkunar nú. Ákveðið jafnvægi er komið á verðþróun á bensíni að nýju eftir tveggja mánaða samfellda hækkun," sagði Hugi. Olís lækkaði bensínlítrann á stöðvum sínum að meðaltali um eina krónu á lítrann að sögn Samúels Guðmundssonar, framkvæmdastjóra áhættustýringarsviðs Olís. Aðspurður sagði Samúel að lækkun á heimsmarkaðsverði hefði ráðið lækkuninni hjá Olís. Hann sagði verðlækkunina misjafna eftir staðsetningu bensínstöðvanna. Aðspurður um hvernig stæði á því að bensín væri lækkað mismikið eftir stöðum sagði hann að verðlagning Olís væri einfaldlega þannig. Essó hefur lækkað verð á öllum bensínstöðvum um krónu að sögn Jóhanns Jónssonar, kynningarfulltrúa. Auk lækkandi heimsmarkaðsverðs vill Essó jafnframt vera í góðri stöðu gagnvart keppinautum sínum. Verð á Egó stöðvunum er nú hið sama og hjá Atlantsolíu en á öðrum stöðvum Essó á bilinu 101 til 110,90, eftir staðsetningu og hvort um fulla þjónustu sé að ræða, að sögn Jóhanns. Atlantsolía vakti athygli viðskiptavina á verðmuni milli bensínstöðva í gær með því að halda uppi skilti með verði bensínlítrans á bensínstöðvum keppinauta sinna. Hugi sagði að bensínlítrinn væri almennt um sex krónum ódýrari að meðaltali á þeim svæðum þar sem Atlantsolía er með bensínstöðvar. "Það er ótækt að keppinautar okkar lækki aðeins verð í næsta nágrenni við okkur og teljum við að þar með séu þeir að brjóta samkeppnislög," segir Hugi og bendir jafnframt á að það mál sé þegar til rannsóknar hjá samkeppnisyfirvöldum og í eðlilegum farvegi þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×