Innlent

Mannariðutilfellum fækkar

Nýjar tölur frá Bretlandi sýna að mannariða (það afbrigði kúariðu sem borist getur í fólk) hafi náð hámarki og að greindum tilvikum fari fækkandi. Í tölum breska heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að það sem af er þessu ári hafi í Bretlandi einungis verið greind 2 tilfelli mannariðu, en í fyrra greindust alls 18 tilfelli. "Nú er talið að mannariðan hafi náð hámarki árið 2000 í Bretlandi en þá veiktust 28 manns af sjúkdómnum. Eftir það hefur dregið úr fjölda árlegra tilfella sem greinast. Á undanförnum 4 mánuðum hefur ekkert tilfelli greinst sem bendir til að enn dragi úr nýgengi sjúkdómsins," segir Haraldur Briem, sóttvarnalæknir. Hann segir að alls hafi í Bretlandi greinst 141 einstaklingur með sjúkdóminn og 6 í Frakklandi. Á Írlandi, Ítalíu, Bandaríkjunum, Kanada og Hong Kong, hefur svo greinst eitt tilvik mannariðu í hverju landi. Annars staðar frá eru svo, að sögn Haraldar, einungis örfá óstaðfest tilfelli. Hann bendir þó á að meðgöngutími mannariðu sé mjög langur og því kunni enn mörg tilfelli að greinast á komandi árum. Uppruni sjúkdómsins er rakinn til mengaðra afurða frá nautgripum, sem sýktir voru af kúariðu. Sjúkdómurinn leggst á miðtaugakerfið og er undantekningalaust banvænn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×