Innlent

Veirunnar leitað í umhverfinu

Fyrir dyrum er sýnataka á Húsafelli í von um að grafast megi fyrir um uppruna niðurgangspestar af völdum Noro-veiru sem ferðamenn á svæðinu hafa orðið fyrir barðinu á. Haraldur Briem, sóttvarnalæknir segir veiruna nokkuð harðgera í umhverfinu. "Við vitum ekki hvernig þetta bar að þarna í Húsafelli, en við ætlum að fara mjög ítarlega í gegnum þetta og finna hana," segir hann, en veiran hefur hingað til verið torfundin í vatni eða annars staðar. "Yfirleitt greinist hún bara í saursýnum. En við höldum okkur komin með aðferð sem gæti hjálpað okkur að finna hana í umhverfinu," segir Haraldur og bætir við að nokkur áhersla sé lögð á að komast að uppruna sýkingarinnar. "Þó að veikindin vari ekki lengi hjá fullfrísku fólki eru þau óskemmtileg uppákoma í sumarfríinu. Svo hefur Noro-veiran verið mikið vandamál inni á heilbrigðisstofnunum." Svipaðar sýkingar og í Húsafelli nú hafa, að sögn Haraldar, komið upp nokkuð víða um land undanfarin sumur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×