Sport

Haraldur á leið til Noregs

Það verður seint sagt að ástandið í herbúðum bikarmeistara Keflavíkur sé gott þessa dagana. Þeir eru þjálfaralausir, misstu Zoran Daníel Ljubicic til Völsungs um daginn og nú er einn sterkasti varnarmaður liðsins, Haraldur Freyr Guðmundsson, á leið til Noregs. Haraldur náði samkomulagi við forráðamenn Ålesund á þriðjudag um samning og verður skrifað undir hann á næstu dögum. Samningurinn er til þriggja ára. "Þetta gekk rosalega hratt fyrir sig og ég er verulega ánægður með að þessi mál skuli vera í höfn," sagði Haraldur í samtali við Fréttablaðið í gær en Ålesund er nýbúið að vinna sér sæti í úrvalsdeild norska boltans. "Ég er mjög sáttur við samninginn. Ég gerði þeim gagntilboð síðasta mánudag og samningurinn er ekki ólíkur því tilboði." Samningur Haraldar tekur gildi 1. janúar næstkomandi en samningur hans við Keflavík rennur út um áramótin. Bikarmeistararnir fá því ekki krónu fyrir Harald. Mörg félög hafa borið víurnar í Harald síðustu ár og hefur hann farið til reynslu hjá ófáum félögunum síðustu ár. Hann var því að vonum feginn að draumurinn um atvinnumennski hefði loksins ræst. "Þetta er bara alveg frábært. Það er gott að fá þetta tækifæri. Ég stefni á að vera þarna í kannski tvö til þrjú ár og ef ég stend mig vel fæ ég vonandi tækifæri í sterkari deild. Það er draumurinn og að sjálfsögðu langar mig helst að komast til Englands," sagði Haraldur Freyr Guðmundsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×