Erlent

New York Times styður Kerry

Dagblaðið New York Times styður John Kerry sem forseta Bandaríkjanna. Blaðið greindi frá þessu í sunnudagsútgáfu sinni og kemur stuðningsyfirlýsingin ekki á óvart. "Kunnátta hans og rökhugsun hefur vakið hrifningu okkar," segir í yfirlýsingu blaðsins. "Hann virðist blessunarlega vera viljugur til að endurmeta ákvarðanir sínar við breyttar aðstæður." Blaðið telur Kerry það til tekna að hafa unnið við opinbera þjónustu nánast allt sitt líf. Það segir hann hafa mikla siðferðiskennd og geta orðið sterkan forseta. New York Times gagnrýnir George W. Bush harkalega og segir kosningabaráttuna fyrst og fremst snúast um skelfilega stjórnartíð hans. Búast hefði mátt við því að Bush, sem sigrað hefði á mjög umdeildan hátt í kosningunum árið 2000, yrði hófsamur forseti. Hið öfuga hefði gerst því hann hefði stjórnað landinu eins og róttækur hægrimaður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×