Erlent

Pettersson allur

Síðasta vonin um að leysa gátuna á bak við morðið á Olof Palme, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, kann að hafa fjarað út í gær þegar Christer Pettersson andaðist á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Þar hafði hann dvalið í tæpar tvær vikur eftir að hann var lagður inn með alvarlega höfuðáverka eftir að hafa dottið heima hjá sér. Pettersson er eini maðurinn sem hefur verið dæmdur fyrir morðið á Palme, sem var myrtur fyrir hálfu nítjánda ári síðan. Hann var hins vegar sýknaður eftir áfrýjun. Þrátt fyrir það hefur grunur manna helst beinst að honum, ekki síst vegna þess að hann hefur sjálfur játað morðið á sig nokkrum sinnum en síðan dregið orð sín til baka. "Víst var það ég sem skaut hann, en þeir geta aldrei náð mér fyrir það. Vopnið er horfið," sagði hann í viðtali við sænska rithöfundinn Gert Fylking fyrir þremur árum. Síðar dró hann orð sín til baka og sagðist ekkert hafa komið nálægt morðinu. Rannsókn á morði Olofs Palme er formlega enn í gangi en litlar líkur á því að málið leysist nokkurn tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×