Innlent

640 þúsund til Palestínu

Hagur heyrnardaufra barna í Palestínu kann að vænkast á næstunni því senn verða sendar 640 þúsund krónur til kaupa á sérstökum búnaði þeim til handa. Um helmingur fjárins hefur safnast í hlutaveltum sem íslensk börn hafa efnt til um stræti og torg en hinn helmingurinn kemur frá Leikskólum Reykjavíkur, sem fjórða árið í röð leggja góðu málefni lið í stað þess að senda út jólakort. Rauði krossinn hefur milligöngu um að senda peningana utan. 85 börn, frá fimm til sextán ára, stunda nám í skóla palestínska Rauða hálfmánans fyrir heyrnardaufa. Þörf er á bættri aðstöðu og tækjabúnaði til að auka möguleika barnanna á bærilegu lífi í framtíðinni. Laugarásbíó býður tombólukrökkunum í bíó klukkan 5 í dag til að þakka þeim aðstoðina við fjársöfnunina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×