Innlent

Hópuppsagnir fyrirhugaðar

Uppsagnir eru fyrirhugaðar hjá Ratsjárstofnun vegna aukinnar sjálfvirkni í rekstri ratsjárstöðva stofnunarinnar. Ólafur Örn Haraldsson, sem unnið hefur að verkefnum hjá Ratsjárstofnun og tekur við forstjórastöðunni um áramótin, segir að hvorki liggi fyrir hversu mörgum verði sagt upp né hvenær. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er líklegt að fleiri en tíu manns verði sagt upp. Í staðinn fyrir að vera með mannaða sólarhringsvakt í öllum fjórum stöðvum stofnunarinnar verður þremur þeirra fjarstýrt frá ratsjárstöðinni á Miðnesheiði. Nú er unnið að því að koma upp nauðsynlegum búnaði til þess að hægt verði að fara út í þessar breytingar. Gert er ráð fyrir að sjálfvirkni í rekstri stöðvanna aukist í áföngum og verði að fullu komin til framkvæmda haustið 2007. Alls starfa 79 manns hjá Ratsjárstofnun, þar af 32 sem eru á sólarhringsvöktum. Ratsjárstofnun rekur ratsjárstöðvar á Miðnesheiði, Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli og á Stokksnesi auk hugbúnaðarsviðs og birgðastöðvar á Keflavíkurflugvelli og skrifstofu í Reykjavík. Rekstur ratsjárstöðvanna er alfarið fjármagnaður af bandarískum stjórnvöldum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×