Innlent

Sátt um Lund

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti einróma skipulagstillögur Lundar í Fossvogsdal. Fyrri tillögur sem gerðu ráð fyrir 460 íbúðum á lóðinni reyndust mjög umdeildar og var mótmælt af íbúum í nágrenni lóðarinnar. Samkvæmt tillögunni sem var samþykkt í bæjarstjórn er gert ráð fyrir 384 íbúðum. Byggðin verður blönduð, með fjórum átta og níu hæða fjölbýlishúsum næst Nýbýlavegi. Norðar á lóðinni verða lægri hús og sérbýli austast. Gunnsteinn Sigurðsson, formaður skipulagsnefndar Kópavogs, segir að skipulagið hafi verið unnið í samvinnu við íbúasamtök. Hann segist eiga von á því að hafist verði handa við byggingu húsanna fljótlega á næsta ári. Einnig verði ráðist í ýmsar vegaframkvæmdir í tengslum við byggingarnar. Til dæmis verði Nýbýlavegur breikkaður og færður til norðurs. Þá verði gerð ný aðrein frá Hafnarfjarðarvegi inn á Nýbílavegi auk þess sem lögð verði tvö ný hringtorg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×