Innlent

Misboðið vegna ofsókna

Pashar Almoallem og Þórkatla Jónsdóttir hafa verið hamingjusamlega gift í fimm ár og búsett allan þann tíma hér á landi. Hann er sýrlenskur og hún íslensk. Útlendingaeftirlitið kannar nú hvort hjónaband þeirra sé málamyndahjónaband. Þórkötlu og Pashar er misboðið. Þau voru ekki heima þegar fulltrúar útlendingaeftirlitsins komu í heimsókn á miðvikudag. En þar voru fyrir ættingjar þeirra. Pashar segir að lögreglan hafi bankað upp á hjá þeim og þau hafi verið spurð að því hvað þau störfuðu og hvar þau byggju saman og svo framvegis. Pashar segist ekki hafa neina hugmynd um hvers vegna þessi rannsókn er farin af stað en segist hafa sótt um ríkisborgarrétt fyrir einu og hálfu ári. Hann hefur engin svör fengið um umsókn sína og hefur lýst yfir undrun sinni á afgreiðslu ráðuneytisins við starfsfólk þar. Í gær leitaði Þórkatla skýringa hjá ríkislögreglustjóra. Hún segir að þar hafi verið beðið um skýrslu, þar sem hún bæri vitni gegn manninum sínum um það hvort um málamiðlunarhjónaband væri að ræða. Slíkt væri náttúrulega fáránlegt, enda þau búin að vera gift í 4 ár. Móðir Þórkötlu spurði fulltrúa útlendingaeftirlitsins hvort ekki væri rétt að þau kæmu þegar Þórkatla og Pasjar væru heima en fékk þau svör að þau mættu spyrja hvern sem er að hverju sem er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×