Sport

Halldór aðstoðar Pál hjá Haukum

Hinn leikreyndi Halldór Ingólfsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Íslandsmeistara Hauka í handknattleik. Halldór mun því aðstoða Pál Ólafsson, sem nýverið gekk frá samningi þess efnis að hann muni halda áfram þjálfun liðsins eftir að hafa tekið við Haukaliðinu á miðju tímabili eftir að Viggó Sigurðsson var rekinn. Halldór stefnir á að spila áfram með liðinu leyfi skrokkurinn það. Haukar hafa orðið fyrir nokkrum skakkaföllum að undanförnu og misst tvo lykilleikmenn til Þýskalands á síðustu dögum. Þá Robertas Pauzuolis, sem gekk til liðs við þýska 1. deildarliðið Wilhelmshavener, og Aliaksandr Shamkuts, sem fór til 2. deildarliðsins Stralsunder. Líklegt má telja að Haukarnir, sem ætla sér stóra hluti eins og venjulega, komi til með að styrkja hóp sinn allverulega fyrir næsta tímabil.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×