Innlent

Lést eftir líkamsárás

Maður á sextugsaldri lést í dag, eftir líkamsárás, á veitingastað, í gærkvöldi. Árásarmaðurinn, sem er 25 ára gamall, var handtekinn og verður gæsluvarðhalds krafist yfir honum. Eftir því sem sjónarvottar segja var árásin tilefnislaus, ekki hafði komið til neinna ýfinga milli árásarmannsins og fórnarlambsins. Málsatvik eru þau að fórnarlambið var á leið út af sveitakránni Ásláki. Í anddyrinu hafði brotnað glas, sem dyravörður var að sópa upp. Fórnarlambið stóð þar hjá og hélt úti handleggnum til þess að fólk gengi ekki á glerbrotin. Annar gestur sem þar var greiddi honum þá þungt högg, neðarlega á kjálka, rétt fyrir neðan eyrað. Sá sem sló rauk svo út af staðnum. Fórnarlambið stóð eftir nokkra stund, og virtist sem hann ætlaði að hrista af sér höggið. Svo byrjaði hann að skjögra, féll niður og missti meðvitund. Tveir dyraverðir eru á Ásláki og þegar þeir töldu sig ekki finna hjartslátt hringdu þeir þegar í neyðarlínuna, og annar þeirra hóf lífgunartilraunir, sem stóðu yfir þar til sjúkrabíllinn kom. Með honum komu læknar sem tóku við lífgunartilraunum. Þeir gáfu manninum meðal annars rafstuð og eftir það fannst púls. Maðurinn var svo fluttur á gjörgæslu á Landspítala, háskólasjúkrahús, í Fossvogi, þar sem hann lést, síðdegis. Árásarmaðurinn var handtekinn fljótlega eftir atburðinn, og hefur verið til yfirheyrslu, hjá lögreglunni, í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×