Erlent

Nokkrir slösuðust í nautahlaupinu

Nokkrir slösuðust í hinu árlega nautahlaupi í Pamplóna á Spáni í dag sem er hluti af San Fermin hátíðinni sem hefð er fyrir í borginni. Hátíð þessi er griðland fyrir spennufíkla og aðra sem vilja fá líkamlega útrás. Fólk frá öllum heimshornum kemur þangað til að hlaupa 825 metra langa leið með mörg mannvíg naut sér við hlið. Flestir reyna að komast sem næst þessum 500 kílóa bolum til að hleypa adrenalíninu ærlega af stað. Göturnar eru hálar og geta jafnvel nautin runnið einsog beljur á svelli og þá er engum hlíft. Hátíðin hefur verið haldin síðan á 16. öld en hlaut heimsathygli er Ernest Hemingway skrifaði um hana í bók sinni Og sólin rennur upp árið 1926. Eftir það hefur hátíðin dregið að sér æ fleiri ferðamenn og fylla þúsundir manna þröngar götur Pamplóna þennan morgun ár hvert. Að sama skapi hefur hætta á slysum aukist verulega og hafa þrettán manns látið lífið í þessu mikla nautahlaupi frá 1924. Að þessu sinni sluppu allir lifandi en fimm voru fluttir slasaðir á sjúkrahús.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×