Erlent

Stendur við fyrri yfirlýsingar

Bandaríska rannsóknanefndin sem hefur rannsakað aðdraganda hryðjuverkaárásanna 11. september segist standa við fyrri yfirlýsingar sínar um að al-Kaída hafi haft mjög takmörkuð samskipti við Írak fyrir árásirnar. Forsvarsmenn hennar segja enn fremur að ekki verði annað séð en að nefndin hafi haft aðgang að sömu skjölum og Dick Cheney varaforseti. Cheney, sem hefur gert mikið úr samskiptum al-Kaída og Íraka, hafði sagt að líklega hefði hann haft aðgang að meiri gögnum en nefndin. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Írakar og al-Kaída hefðu ekkert samstarf haft. Stuðningur Íraksstjórnar við al-Kaída var þó ein af réttlætingum Bandaríkjastjórnar fyrir því að gera innrás í Írak. Niðurstöður nefndarinnar komu sér því illa fyrir stjórnvöld. Cheney gagnrýndi fjölmiðla fyrir að snúa út úr niðurstöðunum og gera meira úr muni á niðurstöðum nefndarinnar og yfirlýsingum stjórnvalda en ástæða væri til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×