Innlent

Hörð átök um sparisjóðsstjóra

Tveir stjórnarmenn Sparisjóðs Hólahrepps gagnrýna meirihluta stjórnarinnar harðlega vegna ráðningar nýs sparisjóðsstjóra. Þeir segjast draga í efa að löglega hafi verið staðið að ráðningu hans og áskilja sér "rétt til að láta reyna á hvort svo sé". Stjórnin greiddi atkvæði um ráðninguna í fyrradag. Var hún samþykkt með atkvæðum tveggja fulltrúa Kaupfélags Skagfirðinga og einum fulltrúa Sambands íslenskra sparisjóða. Tveir fulltrúar stofnfjáreigenda sátu hjá. Þrettán manns sóttu um starfið. "Þetta er angi af stærra baráttumáli, sem snýst um hvernig stórfyrirtæki valtar yfir einstaklinga í sínu héraði," sagði Valgeir Bjarnason, annar þeirra sem greiddu atkvæði gegn ráðningunni. "Hér getur nánast ekkert þrifist nema kaupfélagið sé einhvers staðar með klærnar í því." Valgeir sagði að andstaða tvímenninganna stafaði af því að þeir teldu nýráðinn kaupfélagsstjóra "hallan undir kaupfélagið". Þeir vildu frjálsan sparisjóð sem ekki væri háður neinu fyrirtæki. En með ráðningunni væri Sparisjóður Hólahrepps að verða háður kaupfélaginu, sem réði flestu í Skagafirði fyrir. "Það sem veldur því að við höfum þennan illa grun, er að í vor var fyrrverandi sparisjóðsstjóra bolað burt af kaupfélaginu. Þá kom strax upp nafn þessa nýráðna manns, að það væri ósk frá stjórn kaupfélagsins, að hann yrði ráðinn," sagði Valgeir. "Við teljum að það hafi verið búið að semja um þessa ráðningu á bak við okkur. Við vildum fá starfsmann sparisjóðsins í þetta starf en kaupfélagið vildi mann frá Byggðastofnun og fékk hann. Við erum jafnframt ósáttir við framgöngu Sparisjóðasambandsins í þessu máli." Valgeir sagði að þeir tveir sem greitt hefðu atkvæði gegn ráðningunni væru fulltrúar gömlu stofnfjáreigendanna. Á bak við þá stæðu um 50 stofnfjáreigendur, en um 25 fylgdu kaupfélaginu að málum. Sigurjón Rúnar Rafnsson, einn stjórnarmanna Sparisjóðs Hólahrepps og jafnframt skrifstofustjóri Kaupfélags Skagfirðinga, vildi ekki tjá sig um ráðninguna en vísaði formann stjórnar, Magnús D. Brandsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×