Erlent

Mikil viðhöfn við útför Reagans

Útför Ronalds Reagans, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, fer fram frá dómkirkjunni í Washington í dag. Helstu leiðtogar heims munu votta forsetanum fyrrverandi virðingu sína við athöfnina. Mikil viðhöfn verður við útförina og verður opinberum stofnunum í Washington og víðar um Bandaríkin lokað á meðan hún fer fram. Þá verða helstu umferðargötur í Washington einnig lokaðar og hefur lögregla ráðlagt fólki að notast við neðanjarðarlestir í dag, til að koma í veg fyrir öngþveiti. Meðal þeirra sem viðstaddir verða útförina eru George Bush bandaríkjaforseti, faðir hans George Bush eldri, Margret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi forseti Sovétríkjanna, Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, Gerhard Schröder kanslari Þýskalands og Davíð Oddsson forsætisráðherra Íslands. Bush yngri mun flytja fimmtán mínútna ræðu við útförina og einnig verða spiluð af snældu minningarorð frá Margret Thatcher, sem er of heilsuveil til að koma fram við athöfnina. Alls hafa tæplega tvöhundruð þúsund manns vottað Reagan virðingu sína undanfarna daga með því að leggja leið sína að líkkistu hans. Kista Reagans stóð uppi í Ronald Reagan bókasafninu í Washington á þriðjudag og var síðan ekið í bandaríska þinghúsið, þar sem hún stóð í gær og fyrradag. Reagan verður síðan borinn til grafar í Kaliforníu á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×